Hrunið hippunum að kenna!

Ég lenti á ská í spjalli í Eymundsson og varð hissa að heyra náunga segja að hrun samfélagsins væri hippunum að kenna. Þegar ég kváði sagði hann "jú, hippunum Davíð og þeim." Ha-ha-ha! ... sjaldan hef ég heyrt neitt sár-fyndnara, hef sem sagnfræðingur með áhuga á hugmyndasögu lengi verið úr-pirruð á þessum eilífa misskilningi að rugla A) pólitíkusum 1968 áranna með hár rétt út fyrir eyru saman við B) fólk sem aðhylltist anarkisku rómantísku listabylgjuna sem féll nokkru síðar og var alvarlega síðhært.Ungt fólk upp úr 1968 sem hafði áhuga á pólitík og hlustaði á Bítlana (Davíð og þau) voru allt annar hópur en róttækir listamenn sama tíma. Pólitíkusarnir unnu innan kerfis á meðan listamennirnir afneituðu kerfinu. Pólitíkusarnir voru í ýmsum flokkum en sýndu fljótt sitt uppaeðli, hreinan áhuga á gróðahyggju en ekki hugsjónum nema í orði. Listamannahópurinn samanstóð af anarkistum sem höfðu áhuga á stjórnleysi, listum, bókmenntum og hugmyndasögu, þetta fólk afneitaði pólitík samtímans.Rétt eins og sumir eru kallaðir krútt núna var róttækur listamannahópur áranna 1970-1980 kallaður hippar, hugmyndafræði þessara hópa er náskyld: - rómantísk afneitun á neysluhyggju, - áhersla á að vinna með náttúrunni en ekki á móti henni, - hatur á stríði, illri meðferð dýra og alls lífheims. Það tilheyrir rómantískum listabylgjum allra alda að vera nærgætinn, rækta þarf næma skynjun til þess að geta notið lista og skapað þær. Frá því í endurreisninni hefur kjarni róttækra listahreyfinga falist í því að meðtaka hugmyndir annarra menningarheima, sem grafa undan vestrænum reglum í listum og siðfræði. Með þessu skapast rými frelsi og nýsköpunar. Krúttin fylgjast vel með japönskum teiknimyndum til dæmis, innblásast af heimsmenningunni, sækja efnivið víða.Umræða blaðanna um krúttin hefur dinglað í lausu lofti, án tenginga við eldri bylgjur. Greiningu á stefnum í hugmyndasögu eða listum verður að byggja á sögulegum grunni. Róttækar rómantískar listastefnur af gerðinni hippi og krútt hafa skollið yfir með reglulegu millibili síðan í endurreisninni. Rómantísk bylgja 18.-19. aldar og nýrómantíkin um 1900 eru þær frægustu af þessum toga. Liðið sem hefur verið í andstöðu við listamennina hefur alltaf verið líkt hermönnum, hallt undir kerfi og kirkju, stuttklippt, mega-snyrtilegt og gefið fyrir undirgefni, skynsemi og raunsæi.Um 1970 var þessi tvennd frelsisvina og kerfisvina kölluð hippar-uppar. Nú til dags eru kerfsisvinirnir eða upparnir með hið dæmigerða lúkk bankastarfsmanna á meðan “hippana” má finna í áhangendum krúttanna. Uppatímabil hefur verið lengi við völd (stuttklipt fólk í jakkafötum, gengur fyrir neysluhyggju og metur allt eftir lúkki, eiturlyf þeirra eru áfengi og innan últra hóps kókaín). Á meðan uppamórall er ríkjandi er dregin ógeðslega neikvæð mynd af rómantíska liðinu. Hippi hefur síðan 1980 orðið afar hallærislegt fyrirbæri, löngu komið í ruslið. Sama dýrið höfum við samt á vettvangi í nýjum búningi sem krútt og þykir skárra, enda sleppa þau litagleði þjóðbúninga annarra heimshluta og varast hörð hugvíkkandi lyf fyrri rómantíkera (sem voru ópíum á 19. öld, absint um aldamótin, LSD 1970-1980). Ríkjandi hugmyndafræði svertir alltaf andstæðuna sem var við líði á undan. Listamenn áranna 1970-1980 fyrirlitu kerfisliðið innilega. Þar var álíka grimm fordæming að verki og lesa má út úr fyrirlitningu kerfisfólks á hippum. Í kvikmyndinni Easy rider og fleiri myndum sama tíma skutu kerfiskarlar þá köldu blóðiAð lokum örfá orð um hrunið: Ísland náði ekki að kynnast siðmenningu Evrópu í þúsund ár nema á sviði kristni, því hrynjum við svo gjörsamlega hér uppi í heimskreppu fjármagnsins. Að vera heimskur er að vera lokaður heima, landið var einangrað frá upphafi til samtíma, hingað barst hvorki byggingarlist, myndlist, tónlist, matargerðarlist né nokkuð annað sem tilheyrði siðfágaðri borgarmenningu.  Við vorum því bæði illa upplýst og uppfull vanmáttarkenndar sem braust út í ofur-útrás eða þörf fyrir að sýna hvað við gætum. Við vorum að svala þörf fyrir siðfágað ríkidæmi og yfirráð. Vanmáttarkennd þjóða kemur styrjöldum af stað ... sem og víkinga útrásum. Munum að orsakirnar eru djúpar. Það tilheyrir miðöldum að drepa kónga þegar uppskera brest. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elías Halldór Ágústsson

Þetta er sambærilegur misskilningur og að skilja ekki muninn á Group-kynslóðinni og krúttkynslóðinni.

Elías Halldór Ágústsson, 10.11.2008 kl. 00:09

2 Smámynd: Elías Halldór Ágústsson

Reyndar tilheyrir það ekki miðöldunum að drepa kóngana þegar uppskeran bregst heldur grárri forneskju; tímabili sem er nokkrum kynslóðum eldra en elstu menn mundu þegar fyrstu rituðu heimildir urðu til. Hvenær ætli Dómaldi hafi verið uppi?

Elías Halldór Ágústsson, 10.11.2008 kl. 00:12

3 identicon

skemmtleg og fræðandi samantekt þórunn.

en útaf viðbótinni í lokin verð ég að spurja hvort það var lýðurinn sem heimtaði blóð? eða voru það furstarnir / biskuparnir sem smöluðu hugnruðum lýðnum saman á aftökustaðinn til að kjósa?

margaret thatcher bauð atvinnulausum bretum uppá fótbolta & bjór & slagmál um hverja helgi og það hélt þeim við efnið í 20 ár.

ríkisstjórnin hér býður mér uppá gordon brown og stjórnarandastaðan vill að ég afhausi alþjóðagjaldeyrissjóðinn. ég hins vegar hef - eftir margra ára markvissa þjálfun - vanið mig á það að taka til heima hjá mér áður en ég fer að þrífa hjá öðrum.

Linda Vilhjálmsdóttir (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 23:06

4 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

Kærleiksknús frá Lejre

steina

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 11.11.2008 kl. 19:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Þórunn Valdimarsdóttir

Höfundur

Þórunn Valdimarsdóttir
Þórunn Valdimarsdóttir
sagnfræðingur og rithöfundur
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • fugl

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband