Moggablogg um Alternative Publishing seminar ...

                     Já, kæru vinir sem nennið að lesa þetta blogg. Ég gerðist sem sagt bloggari áður en ég hélt í víking austur því að á seminari á Biskups-Arnarey (uþb. stund í lest norðvestan við Stokkhólm) var ætlast til að við blogguðum tíðindin vítt og breitt um svæði hverrar tungu. Enda er efnið mikilvægt bóklega séð: Alternativ publicering og undir þeim yfirtitli skyldi fjallað um netbókmennta-tímarit, netbækur, netforlög og sérviskulegar smáútgáfur svo sem fyrirbærið print at demand.     Angi út úr Norðurlandaráði greiddi fyrir fundahaldið, sem var haldið í samvinnu milli ritstjórna norrænu netbókmennta-tímaritanna www.litlive.dk, www.litlive.se og www.litlive.no og Ingmars Lemhagen sem er forstöðumaður á Biskups-Arnarey (Biskops-Arnö). Fundahald þetta var ákaflega vel lukkað, verð ég að segja (sænskur syntax, smitið komið í mig auðvitað, veit af því og nýt þess sérstaklega því ég er svo þreytt á þjóðernishyggju og málhreinsun).      Á heildina litið heillaðist ég mest af því sem Danir hafa verið að bralla á netinu. Svo virðist sem þeir standi öðrum smáþjóðum Norðurlanda framar, sbr það að Litlive upphófst i Danmörku og hefur nýlega útvíkkað sig til Svíþjóðar og Noregs. Erindið sem lýsti best kolonial metnaði Dana á netinu var flutt af hinni ofurflottu og fögru Marianne Ping Huang: The Demacracy: offentligheds-formater. Om Beckwerkets brug af offentlige rum fra Kongens Nytorv til bloggo-sfæren. Marianne sagði ma. frá ferð tveggja listamanna til Irak með járnkassa (catering box) er innihélt lýðræði, amk. stóð það á kassanum. Þeir kölluðu sig Nielsen og Rasmussen og blogguðu þennan gjörning sinn stanslaust með myndum. Ferðasagan kom síðar út á bókinni Selvmords-aktionen. Gjörningurinn sameinaði sem sagt myndlist, stjórnmál, blogg og bókmál. Í svipuðu trúðagervi heitandi Thomas og Claus héldu þeir svo með lýræðiskassann sinn í víking í hvíta húsið vestur. Hugmyndinni var bókstaflega stolið úr texta eftir Leonard Cohen frá því fyrir aldamót: “democracy is coming to the USA”. Heimkomnir tóku þeir síðan að sér að svara bréfi því er forseti Íran sendi forseta Bandaríkjanna og sá síðarnefndi var svo dónalegur að svara aldrei, sjá: www.lettertoiran.com. Þetta fannst mér helvíti brilliant notkun á hinum nýja miðli, sterk, gott listrænt concept og dásemlega brennheit skírskotun.       Sjálft www.litlive.dk-se-no er aftur á móti bara eins og hluti af kistunni okkar .is sem var smidud seint á síðustu öld af jafnaldra mínum Matthíasi Viðari Sæmundssyni heitnum. Það var dálítið særandi og létt asnalegt að 3 daga seminar maraþon um þetta efni skyldi ekki tala um að fá Finnland og Ísland með í þetta forum www.litlive...  Ég var sú eina sem minntist á slíka útvíkkun, ef eyru mín og viðvera sveik mig ei. Forsenda þess væri auðvitað að við og Finnar þýddum okkar kistur. Það er dýrt og netið á að vera ókeypis, en ég fékk ágæta hugmynd. Hægt væri að koma á samvinnu milli Háskóla Íslands og Kistunnar er fæli í sér að þýðingadeild og máladeildir norrænu málanna og enskunnar létu nemendur þýða bókmenntagreinar úr kistunni, sem verkefni í sérstökum kúrs. Nemendur nytu þess þá að ná birtingu sem þýðendur á netinu í virðulegu bókmenntatímariti og vefurinn yrði ríkari, auk þess sem gluggi mun við þetta opnast inn og út úr íslenskum bókmenntum.Eins og mál standa nú lenda íbúar heimstungnanna sem goggla oftar en ekki inn á indjánamálum Norðurlandanna þegar þeir eltast við heimsfræga þýdda höfunda til dæmis, og skilningurinn lekur niður milli lakanna.Ég má til með að minnast sérstaklega á annan brilliant lestur. Fyrsta daginn flutti Niðurlendingurinn Hubert van den Berg skolli lærðan og yndislega ögrandi pistil. Hann minnti á skuggahliðar netsins og sá þar með til þess að þingið yrði ekki lofsöngur einn. Allir netverjar sem eiga IP-fang skilja jú eftir “lipstick traces” á netinu, út frá því minnti hann á nýfengið alvald stjórnmála og verslunar með tilkomu veraldarvefsins. Skelfilegur upplástur hefur átt sér stað á sviði leyndar og einkalífs.Minni prelátar fengu minni tíma til umráða en páfarnir. Ég brúkaði mínar tíu mínútur í að sýna ofan í kistuna og stinga upp á samvinnu við háskólana til að rjúfa tungulega einangrun norrænna bókmennta á netinu – með nefndum þýðingarverkefnum nemenda. Landi vor Eiríkur Örn Norðdahl brúkaði sitt korter til að segja frá útgáfu og vef Nýhils. Á kvöldin kepptust svo poet og poetessur við að skína í eldhúsi biskups ...  sem var helvíti gaman bara og ég held ég megi segi þótt sterkt lykti af sjálfumgleði að útbrot okkar úr landsliðinu hafi ekki verið til skammar. Nú er ég komin lengra austur í víking eða til Gotlands þar sem ég leigi smáíbúð í viku. Var satt að segja dauðþreytt eftir þetta marathon seminar, því kvöldið áður í Stokkhólmi tók vinkona mín poetessan Cecilia Hansson mig út að borða sushi með vinum sínum og ég hafði vaknað klukkan 3 að sænskum tíma kvöldið áður til að sleppa úr landi í Keflavík. Fyrir sushi fund þurfti á ég til útgefanda og Cecilia tók að sér að vera minn agent – þetta er jú árið 007 og James Bond víða á vappi. Á leiðinni til kontórs þessa kiljuklúbbs sem selur í 30 þúsund eintökum vildi C sýna mér kirkju sem reyndist lokuð. Af því má draga þann lærdóm að líklega verði ekkert af útgáfudraumi þessum, nema hvað ég dró mitt fagra vinkonu C réttsælis kringum kirkjuna just in case ef einhverju mætti bjarga með hvítagaldri. Fer til Skánar á sunnudag og hef leigt þar hús í sex vikur til að skrifa. Jólabóka-fallöxin fellur jú snemma og best að hamast ef maður ætlar að ná því að vera með. Vinkona mín Ylva Hellerud sem var sænskur sendikennari heima seint á síðustu öld á þrjú hús í Ljónastað eða Laufastað (á sænsku Lövestað en Skánn var jú danskur og út um allt riddarar með ljón á skjaldarmerki sínu). Ylva er að koma þar á fót hæli fyrir þýðendur og rithöfunda sem hún kallar Ordstationen og ég verð tilraunakanínan hennar.  Kannski nenni ég að blogga meir ... en nú er skyldu minni officiellt lokið. Takk og bless, ykkar Þórunn Pórunn Erludóttir og Valdimars.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gaman að rekast á þetta, elsku frænka! kossar frá mönnum og dýrum á baldursgötunum.

Erla Völudóttir (IP-tala skráð) 17.5.2007 kl. 13:14

2 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Gott að rekast á þig í fjórðu víddini. Megir þú sjá við Jólabóka-fallöxinni!

Ásgeir Kristinn Lárusson, 24.5.2007 kl. 10:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Þórunn Valdimarsdóttir

Höfundur

Þórunn Valdimarsdóttir
Þórunn Valdimarsdóttir
sagnfræðingur og rithöfundur
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • fugl

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband